Friðhelg Háaþúfa

Gamli bærinn í Hábæ í Þykkvabæ stendur á hæsta hólnum í Þykkvabæ og efst á þeim hól, í norðaustur frá bænum er þúfa, nefnd Háaþúfa. Hún er eign álfa og ekki má við henni hrófla. Þó er ekki bannað að slá hana. Einhverntíma stakk unglingspiltur priki ofan í þúfu þessa. Nóttina eftir vitjaði húsbónda ókenndur maður, mikilúðlegur í fasi. Kvaðst hann eiga heima þarna í brekkunni og illa hefði nú tekist til er pilturinn stakk í þúfuna, því að með því hefði hann handleggsbrotið barnið sitt. Kvaðst hann virða drengnum það til óvitaskapar en einhver viðvörun yrði þó að koma fram. Daginn eftir var besta kýr bóndans dauð á básnum og hafði þó ekkert séð á henni áður.

(ÁÓ 1962, 256).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.