Engla Imba og systir Fjalla – Eyvindar

Imba plataði konuna og börnin til að fara út á meðan hún stal öllu úr bænum.

Engla Imba bjó í Þykkvabæ og þótti handgengin guði og englum hans. Keypti fólk hana til að biðja fyrir sér og stundum þóttist hún hafa í hendi sér ráð yfir lífi sjómanna sem voru á hafi úti. Arnleif Jónsdóttir hét húsfreyja ein í Þykkvabænum, systir hins fræga útilegumanns, Fjalla Eyvindar. Einhverju sinni þegar karlar voru allir á sjó sá hún að nágrannakona hennar var komin upp á eldhúsmæni með þrjú börn sín, öll fáklædd og var norðankuldi. Arnleif hélt að konan væri orðin galin og spurði hana hvað þetta ætti að þýða: “Ingibjörg ætlar að láta mig og börnin verða uppnumin. Hún er inni að biðja fyrir okkur.” Arnleif skipaði konunni inn en börnin sem voru orðin úrvinda af kulda varð hún að bera inn í bæ. Var Imba búin að stela öllu lauslegu er matarkyns var og bera á einn stað en stökk í burtu er Arnleif kom. Konan og börnin veiktust og lágu lengi á eftir en Engla Imba var hýdd fyrir tiltækið.

(Bry, 78).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.