Draugurinn Gunna Ívars

Gunna lést úr ástarsorg og gekk aftur. Glettist hún við kistusmiðinn, drap konuna sem giftist ástmanni hennar, ásótti marga svo þeim lá við sturlun, snéri vinnukonu á hvolf og flakkaði um Þykkvabæ og nærsveitir. 

Guðrún Ívarsdóttir í Rimakoti sem dó af ástarsorg árið 1815 er einn frægasti og skæðasti draugur Þykkbæinga. Saga hennar, sem skráð hefur verið af Helga Hannessyni, er í stuttu máli þannig að ung var hún vinnukona hjá miðaldra bónda sem átti fjörgamla konu. Hafði Guðrúnu verið heitið að hún fengi að eiga bónda að gömlu konunni genginni en áður en af því yrði brá bóndi loforði sínu og tók sér til fylgilags aðra vinnukonu á bænum. Fékk Guðrún af því svo mikið óyndi að hún lagðist fyrir úti í fjósi í fásinni sem að lokum dró hana til dauða, 28 ára gamla.

Gekk Gunna þegar aftur og glettist við kistusmið sinn. Þegar kistan var síðan borin til kirkju að Háfi sáu menn hvar Gunna gekk með líkfylgdinni enda þótti kistan óeðlilega létt. Mest kvað að draugnum heima í Rimakoti en þó gekk hún ljósum logum um allt þorpið. Gekk hún fljótlega að keppinaut sínum, nýju húsfreyjunni í Rimakoti dauðri og eftir það ásótti hún margt af skyldfólki sínu þannig að margt af því bjó við ævilanga sturlun.

Sagt er að ein frænka Gunnu, Sigríður húsfreyja í Búðarkoti, hafi ekki komist fram úr rúmi í 12 ár vegna Gunnu og eignaðist þó á þeim sama tíma 10 börn með bónda sínum af alls 17 sem þau hjón áttu. Oft brá Gunna á leik. Skömmu eftir dauða Gunnu gerðist það í Rimakoti að ung vinnustúlka þar fór til mjalta. Fljótlega á eftir heyrðu menn “…mikil hljóð til hennar… Þar stóð stúlkan teinrétt í flórnum, með höfuð niður og fætur upp. Þótti sú staða með miklum ólíkindum. Eins vakti undrun, að pils fylgdu fótum, en féllu ekki upp um hana.”

Gunnu varð vart allt fram yfir miðja síðustu öld en mjög var þá farið að draga af henni eftir hálfrar annarrar aldar flakk um Þykkvabæ og nærsveitir. Hafliði Guðmundsson í Búð taldi að þegar gömul kona af ætt Gunnu var jarðsungin skömmu fyrir 1960 hafi presti þeim sem það gerði tekist að slæva afturgöngu Gunnu og stefna henni í gröfina með frænku sinni.

(HH 3, ÁÓ 1962, 261, ath vitna einnig í elías halldórss….).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.