Höfðabrekku-Jóka og Bárður Skæla

Ýmsar sögur eru til um Höfðabrekku-Jóku og ber þeim ekki alltaf saman um uppruna afturgöngu hennar. Hér segir Jón Sverrisson (1871-1968) frá Nýjabæ í Meðallandi, síðar bóndi á Skálmabæjarhraunum og Holti í Álftaveri frá uppruna hennar og heimsókn hennar í Kerlingardal.

Höfðabrekku-Jóka var trúlofuð ungum manni og hann brá heitorði við hana og fór út í Vestmannaeyjar. Hún varð heiftúðug út í hann og fargaði sér út af því. Hún náði kærastanum eftir 20 ár þegar hann kom úr Vestmannaeyjum og fargaði honum.

Höfðabrekku-Jóka kom einu sinni sem hver önnur kona að Kerlingardal. Þær fóru að tala saman, konan sem bjó þar og hún og sú fyrrnefnda hafði þau orð, að sér þætti verst að komast ekki í eldhúsið til að hita kaffi af því að strákurinn hennar væri svo erfiður. Þá sagði Jóka: „Það gerir ekkert til, ég skal hafa ofan af fyrir drengnum, þú getur hitað kaffið.“ Svo fór hún að hita kaffið og þegar að hún kom inn aftur þá sat Jóka með strákinn og kvað við hann þessa vísu:

Nú er hann enn með norðanvind

Og nóga reykjarsvælu

Höfða-Jóka herleg kind

Hampar Bárði skælu.

Strákurinn hét Bárður og það festist við hann nafnið, hann var kallaður Skælu-Bárður alla sína tíð.

Eftir sögn Jóns Sverrissonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í nóvember 1966 (SÁM 86/828 of 86/833) sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1003034

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.