Skiptar skoðanir eru á því af hverju bærinn Hunkubakkar dregur nafn sitt. Hér segir Þórarinn Helgason (1900-1978) bóndi og fræðimaður í Þykkvabæ í Landbroti frá sinni skoðun á þessu.
Menn greinir á um hvað bærinn Hunkubakkar raunverulega heitir. Flestir kalla hann Hunkubakka en ég kalla hann Hungurbakka. Sumir halda því fram að bærinn dragi nafn af konu sem hét Hunka en aðrar halda því fram að það sé hnjúkur þarna í landareigninni sem heiti Hunka. Amma mín var nú uppalinn þarna á Hunkubökkum og hún vissi ekki til þess að þar væri hnjúkur sem héti þessu nafni. Ein ágiskunin er sú að boginn klettur sem þarna er sé tilefnið. En mín skýring er þessi: Bærinn stóð fyrir Skaftáreld á bökkum Skaftár. Skammt frá bæjarrústunum, sem enn sjást (1964) en eru að smá brotna í ána, er gamli bærinn í Dalbæ sem fór í eldinn, það sést móta fyrir gaflhlöðunum undir hrauninu. Og bænahúsið stóð hærra og fór ekki undir hraunið. En maður sér það að bakkarnir þarna á Skaftá, þeir voru mjög litlir og rýrir og líklega mjög graslitlir. Bærinn hefur líklega verið nefndur eftir þessum lélegu bökkum, Hungurbakkar. Hér í Skaftafellssýslu hefur það mjög viðgengist að g hefur verið borið fram sem k. Og menn sögðu því hunkur en ekki hungur og Lankholt en ekki Langholt.
Sögn Þórarins Helgasonar (SÁM 84/63). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júni 1964 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001046