Hvaða umgangur er búinn að vera hér?

Gamla fjósbaðstofan á Hnausum er að stofni til ævagömul, jafnvel talin síðan á þjóðveldisöld. Þarna voru kýrnar niðri, en á bálkunum fyrir ofan þær hefur fólkið sofið. Á seinni tímum var hún nokkurs konar elliheimili. Gamla fólkið lá þarna í hlýjunni sínar síðustu legur. Þarna hefur einhver fjöldi fólks dáið sko.

Það var nokkuð sérstakt þegar Ólafur, sem dó þar seinast veiktist. Það byrjaði með því að þegar mamma kom í fjósið að færa honum kaffi og svoleiðis einn morguninn, þá segir Ólafur: “Hvaða umgangur er búinn að vera hér í alla nótt? Allt fullt af fólki og allir að búa sig í burtu?” Og mamma sagði að það hafi nú bara ekkert verið, henni fannst nú karl vera alveg eins og hann átti að sér, hann var mjög svona hraustur og harður kall, hafði verið skútusjómaður mest af ævinni. En svo útúr þessu þá fer hann að veikjast og eftir hálfan mánuð er hann aldáinn. Síðustu vikuna sváfu þau foreldrar mínir þarna úti á fjóspallinum hjá honum- svo hann væri þar ekki einn. Rúmið hans var hérna í landnorðurshorninu, og eitthvað þótti nú verða vart við hann í fjósinu eftir dauðann. En mér hefur stundum dottið í hug að hann hefur kannski skynjað þann fjölda sem hefur verið búinn að deyja þarna. Það er ómögulegt að segja.

(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum í Meðallandi. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði, feb. 2000. Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri)

Myndin er tekin í fjósbaðstofunni á Hnausum (Ljósm. LM)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.