Vestasti bærinn í Koteyjartorfunni í Meðallandi hét Nýibær. Þar bjó um miðja 19. öldina Guðrún Guðmundsdóttir (1796-1874) ljósmóðir, og má vera að þessi huldufólkssaga Einars Sigurfinnssonar (1884-1979) frá Háu-Kotey í Meðallandi fjalli um hana.
Húsfreyjan í Nýjabæ var einu sinni ein heima um sláttinn. Þá kom til hennar maður og bað hana um að koma með sér og hjálpa sér, því konan sín þyrfti á henni að halda. Húsfreyjan færðist undan því, kvaðst þurfa að vera heima þegar að drengur kæmi með heylestina til að hjálpa honum að taka ofan. Hann lagði þá fastar að henni, segir að þetta verði ekki langur tími og hann skuli sjá svo um að hún verði komin aftur þegar heylestin væri kominn. Konan lætur til leiðast, og fer með manninum út. Alveg við bæinn vissi hún af hól og hún sér að á þessum hól er nú kominn lítill bær, og komu þau þar inn. Þar liggur kona á gólfi og hún fer höndum um hana og þá greiðist hennar hagur strax. Að því búnu býst hún til að fara. Maðurinn fylgir henni út um húsdyrnar og segir að hann geti ekki launað henni með neinu en hann mæli svo um að gæfa fylgdi jafnan höndum hennar hér eftir. Einmitt þegar hún kemur út er drengurinn að koma með lestina í garðinn. Hann er heldur önugur drengurinn, segir að það hafi alltaf verið að slitna aftan úr lestinni á leiðinni, því hafi hann verið svona lengi. En þessi kona lagði talsvert fyrir sig ljósmóðurstörf hér eftir og gekk alltaf vel.
Eftir sögn Einars Sigurfinnsonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í nóvember 1967 (SÁM 89/1735) sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1005905