Ormur í Ytri – Rangá

Ormur liggur á gulli í Ytri-Rangá og setur upp kryppuna. 

Gutlfoss heitir lítill foss eða flúð í Ytri – Rangá á mörkum Árbæjar og Árbakka en bær sá hét áður Snjallsteinshöfðahjáleiga. Ingibergur Runólfsson (1895 – 1981) frá Snjallsteinshöfðahjáleigu taldi að þetta væri afbökun á nafninu Gullfoss og tilfærir máli sínu til stuðnings sögu sem hann hafði heyrt hjá föður sínum, Runólfi Ingvarssyni bónda í Snjallsteinshöfðahjáleigu.

Sagan er skráð í örnefnaskrá jarðarinnar en hefur að líkindum ekki komið á prent á fyrr. “Einu sinni var stúlka í Snjallsteinshöfðahjáleigu á Landi, sem átti gullpening. Hún heyrði sagt að gull yxi ef ormur væri látinn liggja á því, og þetta reyndi stúlkan. Hún lét peninginn í öskju og lyngorm á hann, og það merkilega gerðist að bæði peningurinn og ormurinn fóru fljótlega að vaxa svo að ekki leið á löngu þar til askjan varð of lítil og sprakk. Varð stúlkan þá hrædd og kastaði öllu saman í Ytri – Rangá sem rennur skammt fyrir sunnan túnið í Snjallsteinshöfðahjáleigu. En það er af peningnum og orminum að segja að þeir héldu áfram að vaxa og urðu að ferlíki miklu sem barst fram í foss einn eigi langt frá og strönduðu þar. Sést ormurinn þar enn í dag, þar sem hann liggur á gullinu og setur upp kryppuna, en fossinn er við gullið kenndur og nefndur Gullfoss”

(Örnefnaskrá Snjallsteinshöfðahjáleigu, AnH, VaB).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.