Vestasti Koteyjarbærinn í Meðallandi hét Nýibær og fór sá bær í eyði 1959. Seint á 19. öld ólst þar upp Jón Sverrisson (1871-1968) og segir hann hér frá reimleikum sem þar urðu sem taldir voru tengjast andláti nágrannakonu hans, Elínu á Auðnum.
Þegar ég var smástrákur, svona sex eða sjö ára, þá var þannig ástatt einu sinni að mamma mín varð veik, seinni part dags á meðan pabbi minn var á fjöru. Þá kom það fyrir að hún varð að fara frá kokkaríi, það var úti eldhús, og eins og bæjardyr að því, og var þó nokkuð langur gangur frá útidyrum, sem lágu svo inn í eldhúsið. Og við áttum að kynda undir, og það var verið að kokka kjötsúpu. Hún var búin að láta mjölið í og ganga frá þessu öllu svo það þurfti ekki annað en að halda við suðu. Við vorum tveir bræður þarna, Siggi bróðir sem var sex árum eldri en ég og fór ungur til Ameríku og dó þar, hann var með mér. Hann var nú aðalmaðurinn sem átti að annast verkinn en ég var nú að dinglast með eins og krakkar gera nú oft. Og svo vildi það til, að það var svolítill kaldi að sunnan, og þá stóð nú upp á bæjardyrnar því að þær voru í suður, eins og voru nú flestir bæir á sléttlendinu. Svo erum við nú í eldhúsinu og það gekk nú allt vel þar, við hlógum og gerðum að gamni okkar, og vorum að skríplast, eins og barnæskan gerir. En svo vill það til, þegar bæjardyrnar eru opnar, að það kom svokallað vindkaf að okkur fannst, það vildi slá í augun, svo að við lokuðum bæjardyrunum. En eftir dálítinn tíma heyrðum við voðastórt högg á hurðina og hún kemur með dyrabúnaði og öllu saman inn fyrir dyrnar sem lágu inn í eldhús. Og það voru svona tvö stafgólf frá dyrunum inn að eldhúsgólfinu, og þangað kom hurðin í einu kasti. Og ég ætla ekki að lýsa því hvernig drengjunum varð við. Hann varð auðvitað skíthræddur en ég minna, ég hafði ekki vit á því að verða hræddur. En svo varð það að endanum að hann rak mig á undan sér út úr dyrunum til að láta mömmu vita hvernig væri komið. Þá er pabbi að koma heim svo að hann tók nú við allri stjórninni þarna.
Svo um nóttina dreymir mig það að Elín, kona Jóns á Auðnum komi vaðandi suður yfir vaðið á milli bæjanna eins og hún gerði oft, og hélt á hausnum undir hendinni. Ég varð nú skíthræddur við þetta í svefninum. Það var nú haldið að mig hefði dreymt þetta af því að við urðum svo hræddir við þetta högg á bæjardyrahurðina. En rétt um morgunn, þegar við vorum nývöknuð, þá kom Jón heitinn Guðmundsson, maður þessarar Elínar, og biður pabba um að smíða utan um fyrir sig, þessa konu. Hún var þá dáinn, hafði dáið um kvöldið. Við komumst að þeirri niðurstöðu, eftir því sem karlinn sagði, að hún hefði dáið um það leyti sem þetta gerðist í eldhúsinu.
Eftir sögn Jóns Sverrissonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í desember 1966 (SÁM 86/849) sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1003317