Skipsströnd á Hverfisfjöru og við Skaftárós

Hér segir Þorbjörn Bjarnason (1895-1971) frá Heiði á Síðu frá skipsströndum á Hverfisfjöru og Meðallandsfjörum á fyrra skeiði 20. aldar. 

Það strandaði einu sinni skip á Hverfisfjörum og það tókst illa til með strandmennina. Það varð vart við þá daginn áður en þeim var bjargað en ekki gerð nein gangskör að því. Svo kól þá mikið, svo að það varð að taka fæturna af sumum. Það gerði Þorgrímur læknir, hann bjó þá hérna suður með sjó og var afbragðslæknir. Guðríður ljósmóðir hjálpaði honum, og svo sendi Þýskalandskeisari henni í heiðursskyni nælu með demöntum sem hún átti víst alla ævina og ég býst við að sé einhverstaðar til ennþá.

Og svo voru fjöldamörg strönd önnur þarna. Þar á meðal var ein skúta, dönsk, með pappírsfarm. Þetta var í fyrra stríði. Hún var að fara til Grænlands frá Danmörku og ætlaði að fara krókaleiðir, en þá skall á henni útsynningsrok svo að hana rak upp á Meðallandssandi. Þar var hún að velkjast í þrjá daga þar til hana rak á grynningar og hún strandaði. Mig minnir að það hafi verið tveir sem að drukknuðu af henni, annars vita þeir það betur Meðallendingar. En svo var hún rifin og það var mikið timbur sem að fékkst úr henni. Það voru höfð félagskaup með það og því var skipt á milli og mikið sem kom í hvers hlut. Það var lengi verið að rífa hana því það var nú erfitt með þeim tækjum sem til voru þá en það tókst nú samt að rífa hana algerlega því að hún sat alveg ofan á sandinum. Hún kastaðist svo hátt upp á sandinn í flóðinu.

Svo eru náttúrulega fjöldamörg strönd þarna á kafi í sandi, járnskip. Eitt sinn strandaði franskur togari í Skaftárósi. Það náðist nú ekkert út honum. Og þar voru nú einar tíu tunnur af koníaki og það sáu nú margir eftir því að fá það ekki í land. En það sást lengi á mastrið en svo hvarf það nú alveg.

Eftir sögn Þorbjarnar Bjarnasonar (SÁM 90/2309). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1970 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012482

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.