Skrímslið við Heiðarsel

Menn töldu sig stundum verða vara við eitthvað óhreint í Síðufjöllunum. Hér segir Þorbjörn Bjarnason frá Heiði á Síðu frá viðureign manns við torkennilegt skrímsli við Heiðasel.

Það var einu sinni bóndi sem hét Davíð og bjó í Fagurhlíð í Landbroti. Hann þurfti að gæta að kindum í svokölluðu Geirlandshrauni um haust. Það var farið að skyggja svolítið þegar hann kom í dalinn fyrir neðan Heiðarsel, en hann var á góðum hesti. En svo vill það til allt í einu að hesturinn stansar og fer hvergi úr spori. Og það fer svo að honum sýnist vera eitthvað flekkótt kvikindi við fæturnar á hestinum og reynir nú að koma því í burtu og koma því frá sér en það dugði nú ekki. Og svo er hann þarna nú alla nóttina og verður að fara svona í hring til eða frá og kemst ekki fyrr en undir morguninn heim að Heiðarseli á Síðu. Honum fannst alltaf þessi skepna vilja hrekja sig ofan í gljúfrið sem hann hafði þó að verjast. Og þetta var framúrskarandi vandaður maður til orðs og verka og var engin ástæða til þess að rengja hann, hvað sem þetta hefur nú verið, það er nú ekki gott að segja til um það.

(Eftir sögn Þorbjörn Bjarnasonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í maí 1970 (SÁM 90/2299): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012321

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.