Hér segir Þórarinn Helgason (1900-1978) bóndi og fræðimaður frá Þykkvabæ í Landbroti frá villifé sem tók sér bólfestu á Síðuafrétti eftir Skaftárelda en var að lokum handsamað og fellt í Sólheimagljúfri við Hrútafjöll.
Sveinn Alexanderson (1761-1845) flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Skál að Sólheimum í Mýrdal í Skaftáreldum. Það lifði fátt af fjárstofni þeirra eftir harðindin en það voru nokkrar kindur úr honum sem urðu eftir og urðu að útigangsfé hér á Síðunni. Þetta var villt fé og var til mikils baga við smalamennsku. Þetta urðu þó nokkuð margar kindur og ómögulegt að koma þeim til réttar. Svo komu þeir Sólheimingar, fengu sér menn til hjálpar til að reyna að handsama féð, og höfðu loksins að koma því inn í gljúfur við svokallað Hrútafjall hér inn í Heiðum. Þarna var staðið fyrir því og það handsamað og drepið. Og gljúfrið heitir síðan Sólheimagljúfur, kennt við þá Sólheiminga þó það sé nú ekkert Sólheimalegt.
Sögn Þórarins Helgasonar (SÁM 84/63). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1964 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001053