Völvuleiðið í Norður-Vík

Í Norður-Vík var völvuleiði sem ekki mátti slá. Jón Sverrisson (1971-1968) frá Nýjabæ í Meðallandi, síðar bóndi í Skálmabæjarhraunum og Holti í Álftaveri var vinnumaður í Norður-Vík rétt fyrir aldamótin 1900 segir svo frá viðureign sinni við leiðið: 

Það átti að vera völvuleiði í túninu í Norður-Vík þegar ég var vinnumaður þar. Það átti einhver gömul völva að vera jarðsett þar. Enn morgunn fór ég snemma út, ásamt fleirum, við vorum fjórir saman, sláttumenn, og vorum að slá í túninu. Og þegar húsmóðirn kemur að kalla á okkur í morgunnkaffið, þá segir hún: „Æ nú hefur illa tekist til, þið hafið slegið völvuleiðið.“ „Og hver gerði það?“ spurði hún. „Ég hef sjálfsagt gert það, það sagði mér enginn af því, hvorki þú né aðrir, og ég vissi ekki af þvi, það var akkúrat í skákinni minni“ sagði ég. „Já, þar fór illa“ sagði hún. Svo töluðum við ekki meira um það og fórum inn í kaffi.

Svo leið og beið, svo kom smalinn, rétt á eftir að við drukkum kaffið, með féð og reið jörpum hesti, ungum og fallegum, og sleppti honum hjá tröðunum eins og vandinn var. Og hann fer upp traðirnar og upp með öllum túngarðinum, túnið var stórt og vel girt. Og hann fór með allri girðingunni, og rétt áður en við fórum inn að borða um hádegið, þá fréttum við að jarpur lægi dauður ofan í Víkurá, hefði farið of tæpt meðfram görðunum og hrapað í ána og lægi þar dauður. Og var því kennt um að ég hefði slegið völvuleiðið. En mér var engin sök gefin á því, og kom ekkert fram við mig, þetta óhapp. En þetta var einkennilegt, því það var nógur og góður hagi hefði hann farið upp á ásinn ofar og austur undir Hrafnatind. En að hann skildi rölta beint vestur með og ofan í ána, það er óskiljanlegt alveg.

Eftir sögn Jóns Sverrissonar, viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í nóvember 1966 (SÁM 86/833) sjá: https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1003118

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.