Hinn skyggni

Það var einu sinni ungur drengur undir Eyjafjöllum sem sá ýmislegt sem aðrir sáu ekki, en af því hann var óviti hafði hann orð á því. Foreldrum hans þótti þetta óþarfa íþrótt og voru hrædd um að hann hefði illt af því, fóru því með son sinn til sóknarprestsins og báðu hann að hella helguðu messuvíni í augun á drengnum því það tók af skyggnleik. Prestur gjörði þetta fyrir bón þeirra þó drengurinn bæði hann að gjöra það ekki. Hann lét illa og brauzt um svo prestur kom litlu eða engu í annað augað, en eftir þetta sá hann færra en áður. Nú liðu stundir þangað til hann var fulltíða að aldri.

Þá var hann einu sinni sem oftar að smala. Þá kom á þoka og villtist hann og hitti bæ sem hann þekkti ógjörla. Bærinn stóð opinn og gekk hann inn. Þegar hann kom í baðstofudyr sá hann að kona lá á gólfi og þá stanzaði hann. Hún sagði þá:

„Komdu til mín og snertu mig; þér er það óhætt.“

Hann gjörði það og þá strax fæddi hún barn sitt. Hún þakkaði honum innilega, en sagðist ekki geta launað honum það með neinu nema því að hún sagðist mæla svo um að hvar sem hann yrði á ferð skyldi ekkert óhreint koma nærri honum.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, 33-34).

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.