Múlakotsbræður

Jóni hefndist fyrir að vilja ekki sofa hjá konunni

Á fyrsta hluta 19. aldar bjuggu með móður sinni bræður tveir á Múlakoti í Fljótshlíð sem hétu Jón og Ólafur. Það bar við einn nýársmorgun fyrir dag að Jón fór að gefa í lambhús. Kom þá þar til hans kvenmaður mjög vel búin og fremur lagleg. Hún fer að tala við hann og er blíð i máli og spur hann hvort hann vilji ekki fylgja sér lítinn spotta. Hann þekkir ekki stúlku þessa og fer ekki að finnast til og neitar henni því um alla fylgd og er heldur þurlegur. Þegar það gengur ekki biður hún hann að eiga sig. Hann neitar því þverlega því hann fer að gruna að það sé huldukona. Þá biður hún hann að sofa hjá sér, en hann tekur þar þvert fyrir og snarast í burtu frá henni hinn reiðasti og heim, en ekki veitir hún hönum eftirför. Hann lætur ekki á þessu bera og fara þeir bræður báðir um daginn til kirkju að Teigi í Fljótshlíð. Dvaldist þeim á ýmsum bæjum á heimleiðinni og var komið nokkuð fram á nótt þegar þeir komu að á þeirri er Merkjá heitir og rennur fram skammt fyrir utan Múlakot.

Veðri var þann veg háttað að það var nokkuð þykkt loft og logn, en tungl næstum í fyllingu og var því ekki dimmt. Þegar þeir eru nýkomnir yfir ána sjá þeir báðir að kvenmaður kemur gangandi á móti þeim, og þegar þau mætast sér Jón að það er sú sama sem Jón hafði hitt um morguninn í lambhúsinu. Fer hún að biðja Jón sama og um morguninn og sækir nú fast á. Jón reiðist og fer að atyrða hana heldur freklega og vill stjaka henni frá sér, en Ólafur bróðir hans aftrar hönum frá þessu og biður hann vera góðan. Þá segir konan með reiðisvip að þó hann ekki hafi viljað þýðast sig þá hafi hann ekki þurft að atyrða sig og hrekja og skuli hann kenna á því síðar og hans afkvæmi, en Ólafi hafi vel farið í þessu og skuli hann þess ekki gjalda, því hann sé fremur góðs verður af sér en ills. Fer þá konan burtu frá þeim og hverfur síðan.

Nokkru eftir þetta giftist Jón og fór að búa á annari jörð. Fór þá smátt og smátt að bera á slagaveiki á hönum og ein dóttir Jóns varð so mikill aumingi að hún lá allan aldur sinn og hafði mjög lítið vit eða þekkingu á neinum hlut og ekki fékk hún mál og dó liðuglega hálfþrítug, en eftir að hún deyði fékk systir hennar veikindi mikil með vitfirrings- eða galinskap sem áður var hin efnilegasta stúlka.

Jón þessi Árnason bjó seinast á Bakka í Austur-Landeyjum og deyði þar. Hans sonur var Loftur er bjó á Þorlaugargerði í Vestmanneyjum og gjörðist þar mormóni og sigldi síðan til Vesturheims. Annar sonur hans hét Árni og bjó á Kirkjubæ í Vestmanneyjum og deyði þar. Dóttir hans er Sigriður er eignaðist Jón Oddsson austan af Síðu og búa nú á Bakka og eiga mörg börn. Guðrúnu dóttur Jóns eignaðist Einar hreppstjóri Bjarnason á Hrífunesi í Skaftártungum og var hún sú er fékk vitfirring eftir að systir hennar deyði og var hún þá gift Einari (Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, bls. 123-124).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.