Gaukshöfði

Var Gaukur Trandilsson drepinn við Gaukshöfða eða var það annar maður sem líka hét Gaukur?

Vegurinn upp í Þjórsárdal liggur upp með Þjórsá sunnan undir Hagafjalli. Þegar nokkuð er komið inn með fjallinu liggur vegurinn yfir háls nokkurn er liggur út úr fjallinu fram að ánni og endar í hávum bjarghöfða sem innst gengur út að ánni, en framar er brekka upp undir hamrana og skúti inn undir sem lengi var fjárból frá Haga, en nú er brekkan hröpuð svo þangað er illt að fara um vetur. Höfðinn heitir Gaukshöfði. Sumir segja þar hafi sekur maður hafzt við um hríð er hafi heitið Gaukur, og er það ótrúlegt.

Hitt er líklegra sem sumir segja að þar hafi Ásgrímur Elliða-Grímsson setið fyrir Gauki Trandilssyni frá Stöng í Þjórsárdal og vegið hann þar. Afleiðingar af hálsinum liggja lengra út (fram) með fjallinu en höfðinn nær, og þar liggur vegurinn eins og í tröðum, því fjallið er öðrumegin, en hinumegin grjóthryggur uppgróinn eins og afleiðing vestur af höfðanum, en þó fráskilinn af litlu gili sem rennur ofan hálsinn úr fjallinu. Í tröðum þeim er auðvelt að leynast svo maður sjáist ekki fyrr en nærri því er komið að honum, og er líklegt að Ásgrímur hafi þar setið.

Mannsbein hafa oft komið upp undir bakka fyrir framan Gaukshöfða og er ætlandi að þar hafi verið dysjaðir þeir menn er Gaukur hefir drepið, en hann hefir sjálfur annaðhvort verið færður heim að Stöng og þar heygður eða hann hefir verið grafinn undir steini þeim sem stendur út úr fjallbrekkunni í tröðunum. Hann er hér um bil einn faðmur á hæð upp á brún, en síðan halli upp eftir og gras vaxið fram á, nál. 2% faðmur á lengd og nál. einn faðmur eða tæplega það fram úr brekkunni. Gras er vaxið neðan undir honum, en ekki lítur ólíklega út fyrir að holt sé undir hann að framanverðu lítið eitt. Þenna stein hafa menn kallað „leiðið hans Gauks“, en aðrir „leiði karlsins hennar Líknýjar“. Sumir hafa kallað hann Krossstein því í pápisku kvað hafa staðið þar kross og skyldi hvur gefa honum gjöf er færi um veginn í fyrsta sinn; hefir til skamms tíma elt eftir af þeirri venju, því að þeir sem hafa farið um veginn með einhvurn ungling sem aldrei hefir farið þar fyrr, hafa — án eða af glettni — komið honum til að gefa steininum hrossbein eða hrísluanga eða eitthvað þvílíkt, og hefir þar mátt sjá nóg af þess háttar gjöfum, en það minnkar alltaf því gjafirnar leggjast af og svo lítur út sem þessi vani og nöfn steinsins líka sé nú sem óðast að líða undir lok. Upp undan steininum er hjalli mikill í fjallbrekkunni, og skal þar hafa staðið bær sem hét að Sigurðarstöðum. Þar sjást grjótraðir í flagi og er auðséð að þar hefir bygging verið, en meiri hlutur grjótsins er þó hrapaður ofan í jarðfall sem grafizt hefir þar í flaginu. Þar hefir annars verið lítt byggilegt, veðurnæmt og vatnslítið, að minnsta kosti á stundum(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 4, bls. 130-131).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.