Huldufólkið í Króki

Hér segir Rannveig Einarsdóttir (1895-1990) frá samskiptum Sigríðar Bárðardóttur (1840-1924) við huldufólk á meðan sú síðarnefnda bjó í Króki í Meðallandi.

Sigríður Bárðardóttir bjó lengi í Króki, og bjó þar góðu búi síðustu árin. En hún sagðist ævinlega vita af huldufólkinu þar. Og ef hún tapaði einhverjum hlut, þá leitaði hún ekki að honum, hann var alltaf síðar kominn á sinn stað. Einu sinni dreymdi hana það, að til hennar kæmi kona sem spurði hana að því hvort að hún gæti ekki hjálpað sér um mjólk þar til kýrin sín bæri, hún væri með mörg börn mjólkurlaus. Og Sigríður vísaði henni á eina kúna og sagði henni að hún mætti alltaf mjólka úr tveimur spenunum á henni. Það var vel mjólkandi kýr. Og það hvarf úr kúnni eftir því sem hún sagði, upp undir mánaðar tíma. Svo hætti það. En henni fannst hún alltaf hafa mikla blessun af því að hugsa að huldufólkið mætti nota allt sem hún ætti.

Frásögn Rannveigar Einarsdóttur frá Strönd í Meðallandi. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í apríl 1974 (SÁM 92/2595): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1015143

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.