Huldumaðurinn í Stóruhólum

Huldumaður bjargar Margréti frá óveðri

Þegar Margrét heitin Rafkelsdóttir (ɔ: Rafnkels) var á Núpakoti hjá föður sínum kom hún eitt sinn sem oftar úr sandinum; þá voru skipin fram undan Steinahelli eins og oft hefir verið. Þetta var um kvöldið nálægt dagsetursskeiði. Þá var fremur skuggsýnt því veður var þykkfengið. Í þetta sinn var hún ein sér því sjómenn höfðu riðið heim á undan. En er hún kom upp yfir gljána miðja vega í syðri hlut Steinahólma sá hún mann kippkorn á undan sér og hafði sá tvo hesta í taumi með blautum fisk. Margrét hvatti sporið og ætlaði að ná honum svo hún gæti orðið samferða, en hvað mikið sem hún þæfði í móinn dró hvorki sundur né saman með þeim allt þar til hann hvarf fyri austan Stóruhóla í landsuður af Hlíð. Hún hélt samt áfram um stund. Þá litlu seinna var kallað eftir henni með dimmri raustu:

„Haltú áfram! Flýttú þér!“

Hún gaf sér ekki um það annað, en hélt sína leið. En er hún kom undir túngarðana á Núpakoti datt henni í hug það hún var langseinust úr sandinum og þetta hlaut að vera huldumaður. Brá henni þá í brún með frábærri hræðslu, flýtti sér sem hún gat, dreif ofan af hestunum fiskinn og því næst virkin, lét þá í hesthúsið og fór sem skjótast inn, enda skall þá á blindbylur í sama bili svo ekki var hundi út sigandi. Þannig gaf þessi góði huldumaður henni líf.

Þessi Margrét varð síðan oft vör við huldufólk, einkum er hún var orðin kona í vestasta bænum í Steinum. Þar gekk huldufólkið um brunnhúsið og sótti þangað vatn, enda lét hún það ávallt opið standa. Líka brúkaði það eldhúsið því oft heyrðist glamur í skörungnum og lagði sætan hangikjötsilm inn til hennar. Hún var dóttir Rafkels bónda á Núpakoti, Ólafssonar gamla í Hlíð er fæddist milli 1620—40, Höskuldssonar í Hlíð, Hannessonar Krangs eður Krangefóð er bjó á Lambafelli, kominn hingað frá Norvegi og þangað frá Grikklandi. Margrét dó 1826; hún var móðir Þorbjargar á Steinum.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, bls. 44-45).

.

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.