Útburður við Hestalæk og annar í Fúladal

Óskapnaður sem líktist ullarvindli elti ferðamann og fylgdi honum inn í bæinn á Ægissíðu. Grípa varð til ýmissa ráða til að fólkið gæti sofið í bænum eftir komu ferðamannsins og þess sem honum fylgdi.

Útburður hefur frá ómunatíð átt sér bæli við Hestalæk sem er lækjarsytra í Bjóluhverfinu. Olli hann villu margra sem þarna fóru um. Fúlidalur heitir flóðkvos við Rangá miðja vegu milli Ægissíðu og Hrafntófta. Einnig þar var eitthvað óhreint.

Einhverju sinni nálægt miðri 18. öld bar það við á þessum slóðum að ferðamaður villtist og var það kennt reimleikum þessum, frá öðrum hvorum staðnum. Loks sá hann ljós á Ægissíðu og gekk hann þangað en allan tímann elti hann einhver óskapnaður sem helst líktist ullarvindli. Manni þessum var veittur góður beini heima á Ægissíðu en þá bar svo við að engum þar varð svefnsamt um nóttina. Fannst fólki sem einhver ófreskja leggðist ofan á sig og þrengdi andrúm þess. Fékk enginn sofið væran dúr nema vinnukona ein. Hún greip þrjá gæruhnífa og stakk þeim í röð við stokk í rúmi sínu og svaf svo eins og venjulega. Fór þessu fram þrjár nætur í röð eða þar til brugðið var á það ráð að berja allan bæinn innan með ósærðri svartaviðarhríslu og skjóta svo púðri og roðum af pallskörinni fram í bæjargöngin.

(HH2, GJ X, 90, SæÁg)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.