Ókenndur maður launar næturgreiðann

Þessi maður hafi sennilega komið úr Kellingarfjöllum

Hamarsheiði er innsti bær í Hrunamannahrepp. Snemma á þessari öld bar það til um vetrartíma í harðindum einn dag að bóndinn var staddur í skemmu sinni í snæðingsbyl lítt ratfærum, að ókenndur maður kemur að skemmudyrum og stendur þar nokkuð lengi þegjandi þangað til bóndi segir: „Það er betra að standa inni, maður.“ Maðurinn anzar því lítið, en sezt þó inn á kistu. Bóndi lítur eftir því að fótaplögg komumanns eru mjög slæm því hann sér að hann gengur á berum fótum. Um samtal þeirra er ei getið annað en bóndi spyr komumann hvert hann vilji ekki koma í bæinn og fá að borða og hvíla sig meðan bylurinn sé. Það þiggur komumaður, en biður bónda að geyma göngustaf sinn. Bóndi segir að hann skuli hér liggja í húsasundi eftir heimamanna vana með stangir sínar. Ekki er hinn vel ánægður með það. Þá tekur bóndi stafinn og lætur fyrir ofan kistu í skemmunni og það líkar hinum vel. Síðan fylgir bóndi hönum í bæinn og vísar hönum til rúms og lætur draga af hönum vosklæði og bera hönum mat: harðan fisk, smjör og ost og súrt skyr, og borðar maðurinn þetta hraustlega og hæverskulaust, en mjög er hann fátalaður. Síðan fer hann að sofa og sefur af til morguns.

En um nóttina eða kvöldið lætur bóndi gjöra hönum leðurskó, þurrka og bæta sokka hans og hafa aðra til reiðu nýja. En áður menn fóru að sofa fer vinnumaður og bóndi með ljós út í skemmu að skoða göngustaf komumanns. Hann var sléttur og nettur og því líkt sem ein lítil skora yfir um þvera miðjuna. Þar leitast þeir við að toga sundur og gengur ei. Síðan snúa þeir, og þá lætur til so þeir skrúfa stafinn sundur so þar kemur í ljós spegilfagurt lagvopn eða atgeir. Síðan koma þeir stafnum aftur í samt lag og leggjast til svefns.

Um morguninn er komið gott veður. Nú klæðist komumaður og segist hafa átt væra nótt, og það heyrir fólk að vænt þykir hönum um skóklæðin. Þegar hann er búinn að borða með sama hætti og um kvöldið mælist hann til við bónda að hann gangi á veg með sér, og það gjörir hann, en stingur þó leynilega hjá sér öxi biturlegri. Um kvöldið nálægt dagsetri kemur bóndi aftur og þykir fólki hann nógu lengi burtu verið hafa. Ekkert sagði bóndi af samræðum þeirra, en þrjár spesíur hefði hann gefið sér fyrir næturgreiðann og sagt um leið að hann gyldi þess að hann hefði ei haft meir á sér.

Þessa sögu sagði ég í haust Guðmundi Grímssyni á Þjórsárholti í Gnúpverjahrepp sem sagðist einhverju sinni hafa heyrt hana. Hann sagði að eflaust hefði þessi maður úr Kellingarfjöllum verið eftir afstöðunni (Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 4, bls. 264-265).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.