Strandvaktin

Meðallandsfjörur voru einn stærsti skipakirkjugarður Íslands á árum áður og var það til siðs að vökumenn voru skipaðir yfir ströndunum til að bjarga góssi. Vökumenn urðu þá stundum fyrir ýmsum einkennilegum fyrirburðum, til að mynda Einar Sigurfinnsson (1884-1979) frá Háu-Kotey í Meðallandi sem segir hér frá reimleikum á strandstað ensks togara. 

Það var einu sinni sem oftar í Meðallandinu, að það strandaði þar skip. Þetta var enskur togari. Þá átti ég heima á Syðri-Steinsmýri. Þegar búið var að bjarga mönnunum, sem gekk slysalaust, voru þeir fluttir heim á næsta bæ. Og þegar þessu var lokið var komið kvöld og orðið dimmt, þetta var á þorra. Hreppstjórinn var kominn út að Syðri-Fljótum þar sem strandmennirnir voru komnir og búinn að taka sína skýrslu af skipsstjóranum eins og vant var.

Svo þurfti hann að senda tvo menn á strandstaðinn, um kvöldið, til að vera þar um nóttina, að gæta að ef eitthvað kynni að reka úr skipinu. Það var alltaf siður þegar skip strönduðu að þá voru menn yfir því þar til búið var að selja góssið sem kunni að bjargast. Það vildi svo til að við vorum þarna staddir með fleirum Loftur Guðmundsson á Strönd og ég, og hreppstjórinn biður okkur um að fara suður í fjöru og vera þar um nóttina. Það var allgott veður, svolítið frost og kalt, en stillt. Það var orðið dimmt þegar við Loftur gengum suður eftir, það var svona klukkustundar gangur, nokkuð af leiðinni voru vatnsleirur sem voru nú hilmaðar.

Okkur gekk allvel og við komumst að skipinu og skoðuðum það. Það var spottakorn frá landi, þetta strandaða skip, örstutt sund á milli lands og skips. Við gengum fram og aftur um fjöruna að gæta að því hvort nokkuð væri rekið, og það var ekki neitt. Bátur sem komið hafði af skipinu hafði verið settur upp í fjörunni, honum hafði verið hvolft. Við höfðum ekkert annað skýli en bátinn, og við skriðum undir hann og bjuggum um okkur eftir því sem við gátum. Við höfðum ekkert nema kertisstubb og einhvern bita sem við höfðum fengið með okkur. Við kveiktum nú á kertinu og mokuðum sand norðanmegin að bátnum svo að það var trekklítið.

Svo þegar við erum búnir að fá okkur bita fórum við að hreiðra um okkur, við vorum með sitt hvort gæruskinnið hvor og poka. Þá segir Loftur: ,,Okkur er alveg óhætt að sofna.“ Hann var alvanur að vera vökumaður í þessum ströndum. Svo leggjumst við fyrir, slökkvum ljósið á kertinu. Þá heyrum við eitthvað þrusk úti, eins og það væri dregið eitthvað eftir fjörunni, hún var frosinn og skrjáfaði í henni. ,,Hvað er nú þetta?“ segjum við, og förum út. Þá sjáum við ekki nokkurn skapaðan hlut af neinu tagi, en förum samt þarna til og frá, en sáum ekkert sem gat hafa valdið þessu. Jæja, svo fórum við inn aftur, og lögðumst fyrir. En þegar við vorum nýlega lagstir fyrir, þá kemur þetta þrusk aftur. ,,Þetta er nú eitthvað skrítið“ segir Loftur, „ætli það sé nú draugur á ferðinni.“ ,,Ja, ég held það gæti skeð“ sagði ég, ,,eigum við ekki að fara út og gá hvort við sjáum kauða.“ ,,Jú, við skulum koma út“, segir Loftur. Svo fórum við út en sjáum ekki neina nýlundu. Og við fórum inn aftur og lögðumst til hvíldar. En þá heyrðum við að það kemur roknarstórt högg á bátssíðuna, rétt við hausana á okkur, þetta feiknar högg. Þá fór nú að fara um okkur, við fórum út að sjá hvað hefði valdið þessu en sáum enn ekki neitt. En við urðum svo ekki varir við neitt fleira þessa nóttina. En svo vorum við þarna við Loftur og tveir menn aðrir hátt í þriðju viku, þar til skipið bjargaðist loksins, og sváfum inni í þessum bát og urðum aldrei neins varir.

Eftir sögn Einars Sigurfinnssonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í desember 1964 (SÁM 93/3622) sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1046782

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.